Árið 2025 hefur verið algert metár í sölu á fjarfundalausnum að sögn Kristins Helgasonar, vörustjóra hljóð- og myndlausna hjá OK. „Sala á fjarfundabúnaði, hljóðlausnum og upplýsingaskjám hefur rokið upp og við sjáum skýrt að fyrirtæki eru að fjárfesta markvisst í framtíðinni,“ segir Kristinn aðspurður um þá auknu eftirspurn sem orðið hefur í sölu á fjarfundalausnum.
Kristinn segir að um sé að ræða viðvarandi þróun sem hófst í heimsfaraldrinum, en hafi breyst í kerfisbundna umbreytingu síðustu tvö til þrjú ár.
„Það sem áður var neyðarráðstöfun hefur orðið að staðli. Nú er ekki lengur spurt hvort fyrirtæki þurfi fjarfundalausn heldur hvernig hún geti verið sjálfvirk, örugg og samhæfð vinnuumhverfi sem spannar skrifstofu, heimili og ferðalög,“ segir hann.
Gervigreindin er að taka völdin í fundarherbergjum
Kristinn bendir á að mikil tækniþróun sé drifkraftur aukinnar eftirspurnar.
„Gervigreind er klárlega miðpunkturinn í nýjustu kynslóð fundakerfa og stýra orðið myndavélum, lýsingu, hljóði og fundaskipulagi án þess að notandi þurfi að taka ákvörðun. Fundurinn einfaldlega byrjar án þess að notandi þurfi að velta fyrir sér hvaða takka hann eigi að ýta á. Gervigreindin sparar tíma, dregur úr tæknivandamálum og gerir starfsmönnum kleift að einbeita sér að verkefnunum sjálfum. Við sjáum þessa þróun klárlega í þeim lausnum sem streyma frá okkar birgjum; Yealink og HP Poly.“
Hann segir jafnframt að fyrirtæki séu markvisst að uppfæra gamlan búnað og velja oftar en ekki öflugri búnað en áður.
„Slík útskipti fela í sér einstakt tækifæri fyrir mörg fyrirtæki að endurhugsa fundaherbergi, skjái og hljóðlausnir. Það sem áður var talið íburður er orðið nauðsyn, sérstaklega hjá stofnunum og fyrirtækjum sem vinna með viðskiptavinum á mismunandi svæðum.“
Gagnvirkir skjáir verði meira áberandi
Þrátt fyrir metár telur Kristinn að markaðurinn sé langt frá því að ná mettun. „Við sjáum engin merki um að markaðurinn sé að hægja á sér. Ný tækni og öflugri tæki munu halda áfram að streyma inn á markaðinn, og munu gera kröfur um enn betri tengingar, meiri sjálfvirkni og samhæfingu við önnur kerfi.
Ég get nefnt sem dæmi gagnvirka skjái, sem við munum sjá enn meira af á næstunni. Þá má nefna samstarfsverkefni HP og Google, sem nefnist Starline, sem gengur út á að nýta gervigreind, þrívídd og aðra tækni til að skapa upplifun þeirra sem eru á fjarfundum eins og þeir séu staddir í sama rými. Það er því margt spennandi framundan.“
Samhliða þessari tækniþróun stendur markaðurinn frammi fyrir risavaxinni uppsveiflu. „Alþjóðlegar greiningar spá því að markaður fyrir fjarfundalausnir, bæði búnað og hugbúnað, muni nálgast eða fara yfir tuttugu milljarða bandaríkjadala árið 2030,“ segir Kristinn. „Við erum sem sagt rétt að byrja innleiðingu á tækjum sem munu verða staðall í nánast öllum fundarherbergjum innan fárra ára. Þetta er ekki einhver bylgja heldur hluti af innviðum fyrirtækja.“




