HP kynnti nýja kynslóð prentara með samþættingu við gervigreind á tæknimessunni CES í byrjun árs. Markmiðið er að einfalda prentun og skönnun fyrir fyrirtæki og bæta skilvirkni í daglegum verkferlum með aðstoð Microsoft Copilot og Microsoft 365.
Í fyrirtækjaprenturum HP verður hægt að samþætta Microsoft Copilot. Notendur munu geta skráð sig inn á prentarann beint í gegnum snertiskjáinn með Microsoft 365 aðgangi sínum og fengið aðgang að OneDrive skjölum til útprentunar. Ef Copilot-leyfi er tengt við aðganginn verður einnig hægt að nýta gervigreindareiginleika á prentaranum, svo sem að taka saman skjöl, þýða þau og vinna með efnið áður en það er prentað eða skannað.
Einnig verður hægt að láta gervigreind búa til samantekt af skönnuðum skjölum sem fylgir með í tölvupóstinum. Þá verða til staðar leiðbeinandi ritskoðunareiginleikar (guided redaction) sem geta sjálfvirkt hulið viðkvæmar upplýsingar áður en skjöl eru prentuð eða send áfram.
Í fjölnotatækjum mun gervigreind aðstoða við greiningu á skönnuðum skjölum, stinga upp á heppilegum titlum og vistunarstöðum og einfalda skjalavinnslu. Lausnin er hönnuð til að draga úr handavinnu og bæta yfirsýn í skjalastjórnun fyrirtækja.
HP segir að með samþættingu Microsoft Copilot í HP Office-prentara vilji fyrirtækið hjálpa fyrirtækjum að auka skilvirkni og framleiðni. Samkvæmt spám Microsoft er gert ráð fyrir að meirihluti stærstu fyrirtækja heims muni nýta Microsoft 365 Copilot á næstu árum til að styðja við sjálfvirka og snjalla verkferla.




