„Fyrirtæki um allan heim eru hægt og rólega farin að leggja aukna áherslu á að mæla og bæta upplifun starfsmanna með stafrænum verkfærum,“ segir Christiaan W. Lustig, sem mun halda erindi á ráðstefnu OK 16. október. Hann segir að starfsánægja og framleiðni ráðist í síauknum mæli af gæðum stafræns vinnuumhverfis; stafræn starfsupplifun (DEX – Digital Employee Experience) verði einn af lykilmælikvörðum ásamt hefðbundnum framleiðni mælikvörðum.
Samkvæmt Christiaan hefur orðið skörp breyting þegar horft er til stafrænnar upplifunar á undanförnum árum. „Áður fyrr var horft á tækni út frá virkni en í dag sé hún einnig metin út frá því hvernig hún þjónar fólki, hvernig hún styður við innri stafræn samskipti, samvinnu og þjónustu.“
Á sama tíma spá greiningafyrirtækin Gartner og Forrester því að árið 2030 verði DEX orðin einn af þeim mælikvörðum sem stærri fyrirtæki horfa til. „Þótt ég sé ekki viss um að hægt sé að fanga alla þætti DEX í einu stjórnborði þá verður hún mikilvægur þáttur fyrir stjórnendur til að leggja mat á framleiðni og ánægju starfsmanna,“ segir Christiaan.
„Við sjáum sífellt fleiri nýta sér kosti DEX mælikvarða. Til dæmis er fjarvinna, í einni eða annarri mynd, orðin hluti af hefðbundnu vinnuumhverfi hjá flestum fyrirtækjum, þar sem sveigjanleiki er ekki lengur fríðindi heldur krafa starfsmanna. Aukning í notkun gervigreindar kallar einnig á mælingar á því hvernig slík tækni er nýtt. Þar að auki er öryggi orðið hluti af heildarupplifuninni. Nýir DEX mælikvarðar fanga hvernig öryggislausnir, s.s. auðkenning og sjálfvirkar varnir, hafa áhrif á einfaldleika og ánægju starfsmanna,“ segir Christiaan.
„Á næstu árum munu bestu vinnustaðirnir mæla DEX á svipaðan hátt og fyrirtæki mæla ánægju viðskiptavina í dag. Horft verður á gögn út frá notkun á vélbúnaði, hugbúnaðarnotkun, áþreifanlegum og hlutlægum niðurstöðum verkefna og huglægri upplifun starfsmanna. DEX verður lykilþáttur í að laða að og halda í hæfileikaríkt starfsfólk.“
Christiaan W. Lustig verður fyrirlesari á ráðstefnu OK (Lausnir sem skapa forskot). Þar mun hann fjalla um hvernig fyrirtæki geta nýtt DEX til að auka ánægju starfsmanna, samvinnu og afköst með einföldum en áhrifaríkum aðgerðum.