Annata og Opin kerfi gera samning um hýsingu


Annata hefur samið við Opin kerfi um hýsingu á upplýsingakerfum Annata hjá hýsingarþjónustu þess í gagnaveri Verne Global á Reykjanesi. Með samningnum er Annata að úthýsa þessari starfsemi til Opinna kerfa.  Samningurinn felur einnig í sér  háhraðatengingu milli gagnaversins og starfstöðvar fyrirtækisins í Reykjavík.  


Öryggi, gott aðgengi og áreiðanleiki lykilatriði

„Með samstarfinu verður hýsing Annata færð í einn fullkomnasta hýsingarsal landsins og tryggir aðgang að sérfræðingum og þjónustu- og tækniborði Opinna kerfa. Við leggjum mikla áherslu á öryggismál og að þau séu í lagi og teljum að gagnaver Opinna kerfa hjá Verne uppfylli öryggiskröfur okkar og gott betur. Í leit okkar að hýsingaraðila lögðum við áherslu á að finna samstarfsaðila sem gæti boðið fyrsta flokks aðstöðu, traustan vélbúnað, öflugt tækniteymi, hátt öryggisstig og framúrskarandi þjónustu. Niðurstaðan var að ganga til samstarfs við Opin kerfi sem að okkar mati samtvinnar alla þessa þætti vel. Við hlökkum til samstarfsins“, segir Arnór Ingþórsson hjá Annata.

Frá undirskrift samnings Annata og Opinna kerfa

Á mynd frá vinstri, Davíð Þór Kristjánsson, forstöðumaður lausnasölu Opinna kerfa, Arnþór Ingþórsson hjá Annata, Kristinn Jóhannsson hjá Annata og María Ingimundardóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafasviðs Opinna kerfa. 

 

Þjónusta við öflugt fyrirtæki á alþjóðamarkaði

„Það er mikil viðurkenning fyrir Opin kerfi að alþjóðlegt fyrirtæki eins og Annata sem starfar á mjög kröfuhörðum markaði hafi valið hýsingarlausnir okkar fyrir sinn rekstur. Fyrirtækið starfar bæði á innlendum og erlendum markaði þar sem miklar kröfur eru gerðar um öryggi og þjónustu rekstrarumhverfisins. Þetta verður bæði skemmtilegt og krefjandi verkefni fyrir okkur. Opin kerfi hefur með markvissum hætti fjárfest og byggt upp hýsingarþjónustu í fremstu röð og vaxið hratt á þeim vettvangi. Við veitum öflugum fyrirtækjum, jafnt innlendum sem erlendum aðilum, þessa þjónustu í dag og horfum björtum augum fram á við.“ segir Davíð Þór Kristjánsson, forstöðumaður lausnasölu hjá Opnum kerfum.

Um Annata

Hjá Annata starfar öflugur hópur starfsmanna með sérfræðiþekkingu, sem með framsýni, samstarfi og áræðni hjálpa viðskiptavinum sínum til að ná framúrskarandi árangri í sínum rekstri. Starfsmenn Annata búa yfir mikilli reynslu á innleiðingu hugbúnaðarlausna, þróun og aðlögun. Hjá Annata starfa nú rúmlega 80 starfs­menn og eru þeir staðsett­ir á Íslandi, í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Svíþóð, Dan­mörku, Englandi, Mið-Evrópu og í Malas­íu. Í höfuðstöðvum fé­lags­ins á Íslandi starfa 45 manns við þróun á vör­um Annata og þjón­ustu við viðskipta­vini fé­lags­ins hér á landi.  Stærst­ur hluti tekna fé­lags­ins verður engu að síður til er­lend­is.

Um Opin kerfi

Opin kerfi var stofnað árið 1985 og fagnar því 30 ára afmæli á þessu ári og hefur á að skipa öflugu teymi reyndra sérfræðinga á flestum sviðum upplýsingatækni með langa reynslu af ráðgjöf, þjónustu og innleiðingu lausna hjá flestum af stærstu og kröfuhörðustu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Opin kerfi er samstarfs- og þjónustuaðili Verne Global þar sem hýsingarlausnir fyrirtækisins og innri kerfi eru rekin í einu fullkomnasta Tier III gagnaveri heims í dag.


Nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar veitir Davíð Þór Kristjánsson, forstöðumaður lausnasölu hjá OK, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 570-1000 og Arnór Ingþórsson, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  eða í síma 660-1024

RSS veita